Stefan Sand
tónskáld og stjórnandi

Stefan Sand fæddist í Kaupmannahöfn árið 1995. Árið 2017 útskrifaðist hann sem píanóleikari og píanókennari frá Konunglega danska tónlistarháskólanum. Eftir útskrift kom Stefan til Reykjavíkur og lagði stund á nám við Listaháskóla Íslands á brautinni Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf. Hann lauk meistaraprófi þaðan 2021 og síðan meistaraprófi í tónsmíðum árið 2023 frá sama skóla, þar sem hann naut leiðsagnar Úlfars Inga Haraldssonar, Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar og Tryggva M. Baldvinssonar. Stefan hefur stundað nám í hljómsveitarstjórn hjá Frederik Støvring Olsen og Gunnsteini Ólafssyni og kórstjórn hjá Magnúsi Ragnarssyni.
Stefan einbeitir sér í að miðla tónlist með samstarfi við aðrar listgreinar og listafólk eins og sést í verkefninu Look at the Music, 2021-2023. Verkefnið var í nánu samstarfi heyrandi og heyrnarlauss fólks, þar sem stefnt var að tónlistarupplifun sem veitti báðum hópum ánægju. Úr varð ferð um Norðurlönd 2023 þar sem mörg verk voru flutt bæði með táknmálseinsöngvurum og kammerkór.
Stefan fékk tilnefningu til Grímuverðlauna sem Sproti ársins 2024.
Sem kórstjóri vinnur Stefan bæði með eigin tónlist og annarra, þrátt fyrir að vera nýútskrifaður hefur hann þegar unnið sér sess bæði sem tónskáld og stjórnandi í íslensku listalífi og hefur skrifað verk fyrir ýmsa kóra og einsöngvara, meðal annars Háskólakórinn, Vox Feminae, Art Across Vocal Ensemble, Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur, Hallveigu Rúnarsdóttur og Ólaf Frey Birkisson.
Stefan starfar sjálfstætt sem tónskáld og kórstjóri. Hann stjórnar nú þremur kórum í Reykjavík, Vox Feminae, Hljómeyki og Mótettukórnum.