Um Óperudaga

Ljóðadagar Óperudaga verða haldnir 30. október til 3. nóvember 2019. Þema hátíðarinnar að þessu sinni er ljóð fyrir loftslagið. Þetta er í þriðja skiptið sem hátíðin er haldin en hún vakti mjög mikla athygli í menningarlífi landsins í fyrra og var í kjölfarið valin Tónlistarhátíð ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Á hátíðinni er leitast við að beina athyglinni að klassískri sönglist í öllum sínum mismunandi formum og bjóða upp á viðburði á venjulegum og óvenjulegum stöðum um allan bæ. Að þessu sinni ætlum við okkur að leita inn á við og flytja ný og gömul (söng-)ljóð / gjörninga / atriði og óða til náttúrunnar, æskunnar, móður jarðar og tilverunnar í heild sinni, víðs vegar um bæinn og beina sjónum okkar að stærsta málefni samtímans; loftslagsbreytingunum. 

Ætlunin er að nota sönginn og tónlistina til að þjappa borgarbúum saman og búa til jákvæðan og valdeflandi vettvang til að huga að loftslagsmálunum. Við leitum m.a. innblásturs til ungu sænsku baráttukonunnar, Gretu Thunberg og eistnesku söngbyltingarinnar á 9. áratug síðustu aldar. Söngurinn, tónlistin og ljóðin verða notuð sem miðill til að hvetja til hópeflis, umræðna, íhugunar og lausna á vandanum. 

Aðstandendur

Aðstandendur Óperudaga eru ungir söngvarar og sviðslistafólk sem hafa ástríðu fyrir því að efla óperu- og tónlistarleikshússenuna á Íslandi. Við lítum á okkur sem samfélagslega grasrótarhreyfingu sem hefur það að markmiði að auðga og lífga upp á samfélagið.