Um Óperudaga

Almennt um hátíðina

Óperudagar er hátíð og vettvangur klassískra söngvara og þeirra samstarfsfólks sem vilja í sameiningu og samstarfi efla og styrkja óperu-, söng- og tónlistarleikhússenuna á Íslandi.

Markmiðið með hátíðinni er að standa fyrir vönduðum og fjölbreyttum viðburðum á venjulegum og óvenjulegum stöðum; stuðla að nýsköpun og tilraunum, efla starfsgrundvöll söngvara og þeirra samstarfsfólks; kalla eftir innlendu og alþjóðlegu samstarfi og taka vel á móti nýjum og gömlum áhorfendahópum. Lögð er áhersla á samstarf, samvinnu og samfélagslegan fókus. Óperudagar er ekki aðeins óperuhátíð heldur hátíð allra greina klassískrar sönglistar enda syngja klassískir söngvarar jú alls konar tónlist.

Óperudagar er ein af Borgarhátíðum Reykjavíkurborgar frá 2023-2025

Aðstandendur 2023

Listrænn stjórnandi: Guja Sandholt

Verkefna- og kynningarstjórar:
Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir
Þórunn Vala Valdimarsdóttir

Sérlegur ráðgjafi: Ása Fanney Gestsdóttir

Óperudagar - í fjarlægð 2020 - 2021

Kveðja frá listrænum stjórnanda 

Óperudagar, grasrótarhátíð klassískra söngvara og þeirra samstarfsfólks, hefst 14. október og stendur til 20. nóvember. Þema hátíðarinnar, Í fjarlægð, er innblásið af því ástandi sem skapaðist vegna heimsfaraldursins og áhrifunum sem hann hafði á okkur öll. Þegar athygli er beint að hugmyndinni um fjarlægð, er systir hennar, nálægðin, ósjálfrátt aldrei langt undan. Fjarlægðin er jú fjarvera nálægðarinnar og öfugt. Á flestum viðburðum hátíðarinnar er hægt velta fyrir sér hugtökunum tveimur á einhvern hátt; hvort sem það er í efnistökum, texta, tónlistinni sjálfri, abstrakt hugmyndum, fjarlægðinni/nálægðinni við áhorfendur eða á milli flytjendanna sjálfra. Eftir sammannlega reynslu okkar síðustu mánuði er upplifun og skilningur fólks á fjarlægð og nálægð breyttur. Samfélagið er næmara núna en áður; við erum enn stöðugt á varðbergi, reynum að halda hæfilegri fjarlægð en höfum þó flest fundið skýrt fyrir heitri nálægðarþrá á þessu tímabili.

Um leið og það er forvitnilegt að velta hugmyndum um fjarlægð og nálægð fyrir sér, var annars konar hugmynd um fjarlægð okkur einnig hugleikin við skipulagningu hátíðarinnar. Og það er fjarlægð klassískra söngvara á Íslandi frá því starfsumhverfi sem kollegar okkar í samanburðarlöndum búa við. Miklar vangaveltur hafa verið á kreiki í samfélagi söngvara, samstarfsfólks þeirra sem og í menningargeiranum öllum á undanförnum misserum varðandi málefni söngvara. Ákall eftir faglegra og traustara starfsumhverfi er sífellt að verða háværara. Stjórnendur Óperudaga eru þess fullvissir að ef hlúð verður betur að starfsumhverfinu, munu allir njóta góðs af. Hvernig er það gert? Mikilvægt fyrsta skref gæti verið að hlusta á fagfólkið sjálft og þá sem hafa margra ára reynslu úr óperu- og söngfaginu. Leyfum þeim að vísa veginn.

Með þessum hugleiðingum, býð ég ykkur hjartanlega velkomin á Óperudaga. Markmið hátíðarinnar er að standa fyrir vönduðum og fjölbreyttum viðburðum á venjulegum og óvenjulegum stöðum; stuðla að nýsköpun og tilraunum, efla starfsgrundvöll söngvara og þeirra samstarfsfólks; auka innlent og alþjóðlegt samstarfi og taka vel á móti nýjum og gömlum áhorfendahópum. Lögð er áhersla á samstarf þvert á listgreinar sem og við nemendur og áhugafólk en einnig að efna til samtals um fagleg málefni. Óperudagar er ekki aðeins óperuhátíð heldur hátíð allra greina klassískrar sönglistar.

Ég hlakka til að sjá ykkur, gleðilega hátíð!

Guja Sandholt

Listrænn stjórnandi Óperudaga

Aðstandendur 2022

Listrænn stjórnandi: Guja Sandholt

Verkefna- og kynningarstjórar:
Pétur Oddbergur Heimisson,
Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir
Þórunn Vala Valdimarsdóttir

Sérlegur ráðgjafi: Ása Fanney Gestsdóttir

Styrktar- og samstarfsaðilar