Logn - útgáfutónleikar

Fríkirkjan í Reykjavík · fös 25. okt kl. 20:00
Logn - cover

Logn er nafn á nýjum geisladiski með sönglögum eftir Ingibjörgu Azimu. Geisladiskurinn sem er gefinn út af Odradek records verður gefinn út föstudaginn 25. október og af því tilefni verða útgáfutónleikar sama kvöld í Fríkirkjunni í Reykjavík kl. 20.00.

Á tónleikunum verða flutt 11 ný sönglög við ljóð fjögurra íslenskra ljóðskálda, - Gerðar Kristnýjar, Sölva B. Sigurðssonar, Snorra Hjartarsonar og Kristínar Jónsdóttur. Flytjendur eru Azima ensemble en hópinn skipa: Margrét Hrafnsdóttir, söngur, Hrönn Þráinsdóttir, píanó, Ármann Helgason, bassaklarinett, Björg Brjánsdóttir, flauta/altflauta, Ólöf Sigursveinsdóttir, selló og Ingibjörg Azima, básúna. Logn er dregið af ljóði Gerði Kristnýjar en það er eitt viðamesta verk plötunnar. Önnur ljóð eru Værð eftir sama höfund, síðan Sumarnótt, Lindin í mónum og Hvíld eftir Snorra Hjartarson, þá Fuglarnir, Sonnetta og Ef tár þín væru vatn eftir Sölva B. Sigurðsson og loks Við hliðið, Til næturinnar og Næturferð eftir Kristínu Jónsdóttur. Lögin eru samin á árunum 2010-2022 og hafa sum aldrei verið flutt áður og önnur hafa verið útsett upp á nýtt fyrir gerð plötunnar. Þema geisladisksins má segja að sé innblásið af viðfangsefni ljóðanna en það er í stuttu máli ást í öllum mögulegum myndum, íslensk náttúra og mannleg tilvist. Fyrir hvern lagaflokk er mismunandi hljóðfæraskipan, í grunninn er alltaf píanó og söngur en eitt aukahljóðfæri bætist við hvern flokk til að ljá honum sinn sérstaka lit. Með verkinu vill Ingibjörg Azima lyfta ljóðum þeim sem lögin eru samin við upp úr blaðsíðum bóka og færa þau í lifandi búning tónlistar fyrir heiminn að njóta. Tónlistin er algjörlega innblásin af ljóðunum og hefði aldrei hljómað nema einmitt vegna tilurðar þeirra.

Þátttakendur

tónskáld, básúnuleikari
bassaklarinett
flauta/altflauta