Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir

Sópran

Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir

Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir (sópran) stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík,  fyrst í píanóleik undir handleiðslu Önnu Þorgrímsdóttur en hóf einnig fljótlega söngnám hjá dr. Þórunni Guðmundsdóttur. Þórgunnur lauk framhaldsprófi í söng árið 2011, undir hennar leiðsögn. Eftir árs hlé hélt Þórgunnur áfram söngnámi við skólann, þá hjá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og lauk þaðan burtfararprófi árið 2013. 

Þórgunnur tók þátt í fjölmörgum óperuuppfærslum á vegum Tónlistarskólans í Reykjavík, oft í burðarhlutverki. Þá hefur hún sungið með Mótettukór Hallgrímskirkju frá árinu 2009 og margsinnis komið fram sem einsöngvari með kórnum, s.s. í frumflutningi óratoríunnar Cecilíu (2009) eftir Áskel Másson. Þórgunnur söng einnig með Kór Íslensku óperunnar í tónleikauppfærslu á Peter Grimes (2015) og hefur tvisvar sinnum komið fram með Kór Langholtskirkju. 

Þórgunnur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og nam síðar íslensku og mannfræði við Háskóla Íslands.