Kór Öldutúnsskóla

Kór

Kór Öldutúnsskóla í Amsterdam

Kór Öldutúnsskóla var stofnaður haustið 1965. Það var þó fyrir tilviljun að stofndaginn bar upp á 22. nóvember, sem jafnframt er dagur heilagrar Sesselju, verndardýrðlings tónlistarinnar.

Tilgangurinn með stofnun kórsins var fyrst og fremst að gefa nemendum skólans kost á að þjálfa raddir sínar og þroska músíkalska hæfileika. Ávallt hefur verið lögð áhersla á vandaðan söng og hafa báðir kórstjóranir verið óhræddir við að gera kröfur til kórmeðlima um góða ástundun og einbeitingu. Eitt að aðalmarkmið kórsins í dag er að skapa gott söngsamfélag í kórnum þar sem vönduð vinnubrögð, sönggleði og samhyggð haldast í hendur.

Í fyrstu kom kórinn aðallega fram innan veggja skólans en fljótlega við ýmis önnur tækifæri, einkum í kirkjum og á sjúkrahúsum.

Í maí 1966 söng kórinn í fyrsta sinn í útvarpi og ári síðar í sjónvarpi, síðan þá hefur kórinn margoft komið fram í þessum miðlum.

Vorið 1968 var kórinn valinn til þátttöku á norræna barnakóramótinu sem þá var haldið í Helsinki. Finnlandsferðin var kórnum mikil hvatning og síðan þá hefur kórinn margoft farið utan og sungið í fjölda landa í fimm heimsálfum, Evrópu, Asíu, Afríku, Eyjaálfu og Norður Ameríku. Má í raun segja að utanferðir séu fastur liður í starfi kórsins en það að fara í söngferð til annarra landa, hitta, kynnast, syngja með ungmennum í tónlist og hlusta á aðra kóra er mjög þroskandi og mannbætandi fyrir kórmeðlimi.

Á efnissskrá kórsins í áranna rás hefur verið að finna fjölda laga allt frá 16. öld til okkar daga, en í tugi ára var sérstök áhersla lögð á kynningu íslenskra verka, yngri og eldri höfunda svo og þjóðlaga. Snar þáttur í starfi kórsins hefur verið að frumflytja kórverk íslenskra tónskálda, nú síðast á 50 ára afmæli kórsins. Í tímanna rás hefur fjölbreytni í tónlistarstílum aukist í kórstarfinu.

Kórinn hefur gefið út tvær hljómplötur og tvo geisladiska auk þess að syngja inn á fjölda geisladiska með öðrum tónlistarmönnum og hópum, m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Stofnandi og stjórnadi kórsins fyrstu 40 árin er Egill Friðleifsson en haustið 2005 tók Brynhildur Auðbjargardóttir við og stjórnar kórnum enn í dag.

Kór Öldutúnsskóla á sér merka og einstaka sögu í hafnfirsku og íslensku tónlistarlífi. Hann er elsti starfandi barnakór landsins.

Styrktar- og samstarfsaðilar