Francisco Javier Jáuregui
klassískur gítarleikari

Francisco Javier Jáuregui er spænskur gítarleikari og tónskáld sem fæddist í Oxford. Javier stundaði nám í klassískum gítarleik hjá Kenton Youngstrom við the Community School of Performing Arts (sem heitir nú Colburn School of Music) í Los Angeles í Kaliforníu og hjá Agustín Maruri og Óscar López í Madríd. Hann lauk Licenciate Diploma frá the Associated Board of the Royal Schools of Music og hóf þá nám hjá Robert Brightmore við Guildhall School and Music and Drama í London, þaðan sem hann útskrifaðist með gráðuna Master of Music in Performance. Þar lærði hann einnig á tíorbu hjá David Miller og spuna hjá David Dolan.
Javier hefur komið fram á tónleikum, bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar, á Spáni, Ítalíu, Möltu, Íslandi, í Englandi, Skotlandi, Frakklandi, Bandaríkjunum, Rússlandi, Marokkó og Suð-Austur Asíu. Hann hefur flutt gítarkonserta eftir Vivaldi og Rodrigo (Concierto de Aranjuez) og önnur verk með sinfóníuhljómsveitunum Schola Camerata, Santa Cecilia og Orquesta Sinfónica de Getafe á Spáni og Sonor Ensemble, sem skipað er hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Spánar. Hann hefur einnig komið fram með Saint Petersburg State Symphony Orchestra.
Stór hluti þeirrar tónlistar sem hann hefur flutt undanfarin 20 ár hafa verið hans eigin tónverk og útsetningar. Hann hefur einnig samið verk og útsett fyrir kammerhópa og kammersveitir s.s. Sonor Ensemble. Tónlist hans hefur verið flutt á vegum Íslensku óperunnar, Tardes de España í St. Pétursborg, Complutense háskólans í Madríd, Passau Festival í Þýskalandi, sumartónleikaröð Madrídarhéraðs, Listahátíðar í Reykjavík, Wigmore Hall, London City Festival og Auditorio Nacional de la Música de Madrid. Verk hans The Religion of Love var hluti af doktorsverkefni Feryal Qudourah við Florida State University. Útsetningar Javiers á íslenskum þjóðlögum má heyra á geisladiskunum Mitt er þitt – íslensk og spænsk þjóðlög (12 tónar 2008), Inspired by Harpa (12 tónar 2013) og Icelandic Folk Songs and Other Favorites (Sena 2014).
Sem gítarleikari hefur hann frumflutt fjöldann allan af verkum, m.a. eftir tónskáldin Þorkel Sigurbjörnsson, Huga Guðmundsson, Þóru Marteinsdóttur, Hauk Tómasson, Hildigunni Rúnarsdóttur, Pál Ragnar Pálsson, Agustín Castilla-Ávila, David del Puerto, Karl Nicklas Gustavsson, Marisu Manchado-Torres, Polinu Medyulyanovu, Eduardo Morales-Caso, Hideyuki Takemoto og Önu Vázquez Silva.
Javier kemur reglulega fram með eiginkonu sinni Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur mezzósópran sem Dúó Atlantico, með Elenu Jáuregui fiðluleikara sem Roncesvalles dúóið og með þeim báðum sem Aglaia tríóið. Javier hefur tekið þátt í verkefnum í tónlistarmenntun á vegum Wigmore Hall í London frá árinu 2001. Hann er einn stofnenda og stjórnenda Festival Internacional de Música de Navarra á Spáni og Sönghátíðar í Hafnarborg. Hann hefur kennt klassískan gítarleik við King’s College í Madríd og St. Louis University í Madríd, þar sem hann var yfirmaður tónlistardeildarinnar. Hann kennir nú gítarleik við Tónskólann í Reykjavík og Tónskóla Sigursveins. www.javierjauregui.com
Francisco Javier Jáuregui á Spotify: https://open.spotify.com/playlist/0KJVN4wWxJDvPEjB82s2KJ?si=b07ad548a3b7432e
Francisco Javier Jáuregui á YouTube: https://www.youtube.com/watch?v=0UfNCw2mgTM&list=PLfpBf_18yTnRIzNZRamTB9_O7siP4_FKl