Gunnar Erik Snorrason

leikari og söngvari

Gunnar Erik

Gunnar Erik (f. 2011) er í 8. bekk í Dalskóla í Úlfarsárdal og féll fyrir leiklistinni þegar hann fór í prufur fyrir Emil í Kattholti í Borgarleikhúsinu 10 ára gamall. Gunnar Erik lék Emil í Kattholti á árunum 2021-2023. Hann fór í leiklistarskóla Borgarleikhússins í kjölfarið og mun útskrifast þaðan sem ungleikari árið 2025.

Hann fékk hlutverk í jóladagatalinu á RÚV „Dagar í desember“ árið 2022 en þar lék hann annað aðalhlutverkið, hann Munda sem var karakter í bókunum um vinina Randalín og Munda. Gunnar Erik hefur líka leikið í gamanþáttunum Kennarastofan og erlendu þáttunum Darkness, sem eru byggðir á bókum Ragnars Jónassonar.

Hann hefur leikið í áramótaskaupinu og krakkaskaupinu og tekið þátt í allskonar skemmtilegum viðburðum og auglýsingum í sjónvarpi.

Gunnar Erik fór á talsetninganámskeið hjá Stúdíó Sýrland árið 2023 og í kjölfarið talað og sungið inn á allskonar skemmtilega barnaþætti og bíómyndir og er enn á fullu í þeirri vinnu.

Tumi fer til tunglsins var enn eitt ævintýrið sem Gunnar Erik tók þátt í og féll fyrir eftir fyrstu æfingu. Boðskapurinn, tónsmíðin og fólkið í kringum verkefnið var allt það sem hægt var að óska sér.

Gunnar Erik og félagar hans léku og sungu í lokaverkefni Körlu Anítu Kristjánsdóttur í Listaháskóla Íslands, sem var dásamlegur söngleikur úr bókinni Benjamín Dúfu og samdi Margrét Kristín Sigurðardóttir tónlistina í sýningunni.

Gunnar Erik er í Miðstöðinni, sem er sameiginleg rhytmadeild Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Nýja tónlistarskólans, en þar spilar hann á trommur og er í bakröddum með hljómsveitinni Espólín. Hann spilar líka á bassa og gítar og í raun öll hljóðfæri sem hann kemst í.

Í dag leikur Gunnar Erik í leiksýningunni Fíusól í Borgarleikhúsinu, en þar leikur hann óþekktarorminn Tóta og er sýningin er algjör gleðisprengjusýning.

Gunnar Erik hlaut verðlaun sem barnaleikari ársins fyrir Emil í Kattholti ásamt meðleikurum og var sýningin valin barnasýning ársins á Grímunni og Sögum barnamenningarhátíð árið 2022. Hann var valinn leikari ársins fyrir hlutverk sitt sem Mundi í „Dagar í desember“ og hlutu þættirnir einnig verðlaun fyrir barna- og unglingaefni ársins á Eddunni og Sögum barnamenningarhátíð árið 2023. Fíasól hlaut flest verðlaun á Sögum barnamenningarhátíð í ár, en þau hlutu meðal annars verðlaun fyrir sýningu ársins og leikari/flytjandi ársins.

Leikhúsið og tónlist á hug hans allan og hann telur sig algjörlega hafa fundið sína hillu í lífinu.