Elektra ensemble

13152638_1012563278781564_321663872_n.jpg

ELEKTRA ENSEMBLE er glæsilegur tónlistarhópur skipaður fimm ungum framúrskarandi tónlistarkonum. Hópurinn var útnefndur Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2009 og gekk í kjölfarið til samstarfs við Listasafn Reykjavíkur um tónleikaröð á Kjarvalsstöðum. Helstu verkefni Elektra Ensemble hafa verið tónleikaröð á Kjarvalsstöðum frá 2009, tónlistarflutningur á Myrkum músíkdögum, Kirkjulistahátíð, í BOZAR tónleikahöllinni í Brussel sem og tónlistarflutningur á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í beinni sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum. Elektra Ensemble hlaut góðar viðtökur fyrir tónleikaraðir sínar árin 2009 – 2015 og mikið lof gagnrýnenda auk þess sem RÚV hefur margsinnis hljóðritað leik þeirra. Ásamt því að flytja helstu perlur tónbókmenntanna leggur hópurinn rækt við frumflutning nýrra verka. Hópurinn hefur frumflutt verk eftir m.a. Huga Guðmundsson og meðlimi Errata Collective tónskáldahópsins. En í sumar mun Elektra Ensemble flytja heila tónleika með verkum Errata á tónlistarhátíð í Svíþjóð. 

Tónlistarkonurnar í Elektra Ensemble hafa allir leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og komið víða fram á tónleikum hérlendis og erlendis. Þær hafa lokið námi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands og stundað framhaldsnám í virtum tónlistarháskólum í Bandaríkjunum, Belgíu, Englandi, Hollandi, Frakklandi og Þýskalandi. Meðlimir hópsins eru Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari, Emilía Rós Sigfúsdóttir flautuleikari, Helga Björg Arnardóttir klarínettuleikari, Helga Þóra Björgvinsdóttir fiðluleikari og Margrét Árnadóttir sellóleikari. Nánari upplýsingar um Elektra Ensemble og tónleika þeirra er að finna á heimasíðu hópsins www.elektraensemble.com.

Styrktar- og samstarfsaðilar