Svanhildur Pálmadóttir
Söngkona

Íslenska mezzósópransöngkonan Svanhildur Pálmadóttir er þekkt fyrir vítt raddsvið sitt og kraftmikinn söng. Hún lauk námi í óperusöng frá Tónlistarskólanum í Garðabæ undir handleiðslu Snæbjargar Snæbjarnardóttur. Að því loknu hélt hún til Ítalíu þar sem hún stundaði framhaldsnám í óperusöng við Conservatorio “Jacopo Tomadini” í Udine og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn undir leiðsögn Mirnu Pecile og Marcello Lippi. Hún tók þátt í óperustúdíóinu í Pisa þar sem hún söng hlutverkin Adelaide og Peppenella í Napoli Milionaria eftir Rota. Þá söng hún einnig hlutverk Giustinu í verki Pergolesis á meistaranámskeiðinu Laboratorio Musicale Abruzzese di Flaminio. Á Ítalíu hefur Svanhildur komið fram á ýmsum tónlistarhátíðum og flutt nýuppgötvuð messuverk, meðal annars á Nativitas, Canti e Tradizioni Natalizie in Alpe Adria 2010, Festival Internazionale di Musica Sacra – Incontro Religiose (gefið út á geisladiski), og á Il Piccolo Festival þar sem hún söng hlutverk Isabellu í L’Italiana in Algeri eftir Rossini. Meðal hlutverka sem hún hefur sungið eru aðalhlutverkið í Zanetto eftir Mascagni, Dardano í Amadigi di Gaula eftir Händel, Suor Zelatrice og La Zia Principessa í Suor Angelica eftir Puccini, Carmen í Carmen eftir Bizet, Kundry í Parsifal eftir Wagner og Hela í Gunlöd eftir Cornelius, sem útvarpað var á NDR Kultur Radio.