Graduale Liberi, Graduale Futuri og Gradualekór Langholtskirkju
kórar

Graduale Liberi, Graduale Futuri og Gradualekór Langholtskirkju eru hluti af Kórskóla Langholtskirkju sem var stofnaður haustið 1991 af Jóni Stefánssyni, þáverandi organista kirkjunnar en hann stýrði kórnum allt til hann lést árið 2016. Markmið skólans er að veita börnum og unglingum staðgóða tónlistarmenntun með markvissri þjálfun raddar og heyrnar sem miðast að þátttöku í kórstarfi. Kórarnir syngja fjölbreytta kórtónlist, allt frá léttum dægurperlum yfir í ættjarðarlög, sálma og stærri verk. Kórmeðlimir taka þátt í fjölbreyttum verkefnum, t.d. Litla tónsprotanum með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Fastir liðir í starfinu er t.d. Fjölskyldutónleikar í Langholtskirkju auk þess sem Gradualekórinn tekur þátt í Jólasöngvum Kórs Langholtskirkju. Kórarnir taka reglulega þátt í kóramótum og söngferðalögum, innanlands sem utan. Í kórunum syngja um 70 börn á aldrinum 7 til 18 ára. Kórstjórar eru Björg Þórsdóttir og Sunna Karen Einarsdóttir.