Barbörukórinn

Barbörukórinn er kammerkór stofnaður vorið 2007 af Guðmundi Sigurðssyni, þáverandi organista Hafnarfjarðarkirkju, og hópi söngvara. Kórinn kennir sig við heilaga Barböru, en stytta af henni fannst við uppgröft í Kapelluhrauni árið 1950. Kórinn kemur reglulega fram við helgihald í Hafnarfjarðarkirkju, auk tónleikahalds og söngs við útfarir víða um höfuðborgarsvæðið. Barbörukórinn er þekktur fyrir tæran og vandaðan söng og fagmennsku í framkomu, og hefur lagt sérstaka áherslu á íslenskan tónlistararf. Hann hefur gefið út geisladiskana Syngið Drottni nýjan söng (2012) og Barbara mær (2023), sá síðarnefndi með a cappella kórverkum eftir íslensk tónskáld. Haustið 2023 tók kórinn þátt í kórahátíð í Tolosa á Spáni, hélt þar ferna tónleika fyrir fullum kirkjum og hlaut einróma lof áheyrenda.