Varstu búinn að vera að reyna að ná í mig?

Varstu búinn að vera að reyna að ná í mig? er sóló ópera fyrir eina rödd og rafhljóð eftir Guðmund Stein Gunnarsson.
Fyrsti þáttur: Laberico Narabida
Fjórar raddir tala saman í gegnum einn „hátalara“ sem er mannsrödd. Við heyrum raddir. Við heyrum sneiðmyndir af ýmsum röddum í gegnum eina. Raddirnar eru ekki sama manneskjan. Sumar eru óöruggar og aðrar hafa mikið sjálfstraust. Sumum liggur rómurinn hátt, með fína óperurödd en aðrar umla og tala hversdagslega, fálmkennt eða í hálfum hljóðum - nánast ómerkingabær hikorð. Raddirnar 4 hafa skírskotanir í ýmis fjögur einkenni eins og þau birtast í ýmsum gömlum læknisfræðum sem og trúar- og/eða dulspekikenningum (líkamsvessarnir 4, elementin, fyrstu 4 chökrurnar, stjörnuspeki, landvættirnir, 4 af erkitýpum Jung osfrv). Manneskjan er ekki við eina fjölina felld, liggur í meinloku og ratar ekki heim. Láttu mig þó reyna, láttu mig reyna.
Annar þáttur: Skrafað í skurði
Skrafað í skurði er einhvers konar klifun niður á við. Röddin leitar að samhljómi við sjálfa sig. Það sem áður var einfalt verður núna flókið. Það sem áður var flókið verður núna einfalt. Að semja er að leita sátta. Í samningarferli milli frumefna, þarf að myndast einhvers konar sátt. Alla vega tímabundið, í bili.
Þriðji þáttur: Adibaran Ocirebal
Í síðasta þættinum leita frumefnin fjögur að jafnvægi. Þau birtast sem fjórir karakterar sem allir taka sér bólfestu í söngkonunni. Eftir að hafa barist um athyglina reyna karakterarnir að ná sáttum og jafnvel samruna en það er þeim ómögulegt. Verkið vinnur með rými - staðsetningu hljóða úr sértækum hátölurum og raddarinnar, hvernig hvort tveggja kallast á og vinnur saman. Getum við raunverulega átt samskipti? Getur nokkur manneskja raunverulega tekið við mikilvægum upplýsingum frá annarri? Er skilningur nokkurn tímann mögulegur?