Viðburður Óperudagar 2025

Miðnæturmessa - Auður Guðjohnsen

Aðventkirkjan í Reykjavík · fös 24. okt kl. 23:00
Miðnæturmessa Barbörukórsins

Barbörukórinn flytur Messu, nýtt tónverk eftir Auði Guðjohnsen 24. október klukkan 23:00 í Aðventkirkjunni í Reykjavík. Stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson. Messan er flutt í blönduðum kór án undirleiks.

Markmið þessarar tónsmíðar er að auka áhuga á íslenskri kórtónlist með því að höfða til breiðari hóps fólks með aðgengilegu en jafnframt áhrifaríku tónmáli. Tilgangurinn er ekki síður sá að endurvekja eitt þekktasta form kirkjutónlistarinnar og glæða textana nýju lífi.

Norræn kórtónlist vekur sífellt meiri áhuga erlendra kórstjóra og unnenda kórtónlistar í heiminum og þar er íslensk tónlist að engu undanskilin. Það er hlutverk íslenskra tónskálda að bæta sífellt við flóru kórtónlistar á Íslandi, ekki síst á sviði kirkjutónlistar til að efla starf kirkjunnar, vegsemd hennar og virðingu.

Verkefnið hefur hlotið styrk úr Tónskáldasjóði RÚV og Stefs, Tónlistarsjóði Kirkjunnar og Stefs, Menningarsjóði FÍH og Sjóði Friðriks Bjarnasonar og Guðlaugar Pétursdóttur og frá Hafnarfjarðarkirkju.

Barbörukórinn er kammerkór, stofnaður vorið 2007 af Guðmundi Sigurðssyni, organista Hafnarfjarðarkirkju, og nokkrum söngvurum. Kórinn er skipaður 16 atvinnusöngvurum og er þekktur fyrir afar tæran söng og fagmannlega framkomu.
Hann kennir sig við heilaga Barböru en stytta af dýrlingnum fannst árið 1950 við uppgröft í fornri kapellu í Kapelluhrauni í Hafnarfirði. Kórinn kemur reglulega fram við helgihald Hafnarfjarðarkirkju auk tónleikahalds og söngs við útfarir þar og víðar.

Þátttakendur

kammerkór
tónskáld