Fólkið

Um Óperudaga

Óperudagar í Kópavogi er ný óperuhátíð sem verður haldin dagana 1.- 5. júní 2016 í Kópavogi. Hún er skipulögð af ungu tónlistarfólki í nánu samstarfi við Kópavogsbæ en markmiðið er að breyta Kópavogsbæ í óperu- og leiksvið í nokkra daga. Gestum og gangandi verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá á sem flestum stöðum þar sem flytjendur og áhorfendur munu eiga í fjörugu samtali við óperuformið. 

Fjöldi ungs listafólks kemur að hátíðinni sem verður sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og mikil áhersla verður lögð á samfélagslega nánd og þátttöku.

Á hátíðinni geta gestir farið í Óperugöngu og Krakkagöngu í hjarta bæjarins; ný íslensk Fótboltaópera verður frumflutt og tvær stuttar óperuuppfærslur líta dagsins ljós. Auk þess munu þátttakendur heimsækja skóla og hjúkrunarheimili og þau fyrirtæki sem hafa áhuga á að taka þátt. Þá verður boðið upp á kammertónleika í heimahúsum og fimm hádegistónleika í Salnum og Leikfélagi Kópavogs. Kópavogsbær er aðalbakhjarl hátíðarinnar.

Ókeypis verður inn á alla viðburði nema hádegistónleikana en við mælum eindregið með að áhugasamir tryggi sér miða á viðburði með því að senda tölvupóst á operudagar@operudagar.is ásamt nafni, síma og fjölda miða sem óskað er eftir. Gestum er velkomið að mæta á staðinn án þess að hafa pantað miða en þá er ekki hægt að tryggja að enn séu til lausir miðar.